Framúrskarandi árangur á skákmóti

on .

okt 21 2 forsida
Smellið á myndina til að sjá fleiri myndir.

Landakotsskóli stóð sig framúrskarandi vel á Reykjavíkurmóti grunnskólasveita sem fram fór í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur 11.-12. október síðastliðinn. Skólinn sendi eitt lið í flokk 4.-7. bekkjar og lenti sveitin í fjórða sæti, steinsnar frá verðlaunasæti. Liðsmenn á miðstigi voru: Jón Louie Freygang Thoroddsen og Helgi Nils Gunnlaugsson 4. bekk, Muhammad Rayan Ijaz Sulehria B-hópi, Vilhjálmur Andri Jóhannsson 6. bekk. Liðsstjóri var Jón Fjölnir Thoroddsen. Sveitin vann þrjár viðureignir, gerði jafntefli í tveimur og tapaði tveimur, og hlaut 17 vinninga, aðeins hálfum vinningi frá þriðja sæti. Sjá nánar um úrslit mótsins á chess-results:  https://chess-results.com/tnr584188.aspx?lan=1 

Í keppni 8.-10. bekkjar sendi skólinn tvö lið, A-sveit og stúlknasveit. A sveitin gerði sér lítið fyrir og vann mótið, með þó nokkrum yfirburðum. Allar viðureignir unnust, heilir 22 vinningar af 24 mögulegum! Sveitin var skipuðum fráfarandi Íslandsmeisturum grunnskólasveita auk varamanna. Á fyrsta borði tefldi Adam Omarsson, á öðru borði Iðunn Helgadóttir, og á þriðja borði tefldi Jósef Omarsson sem fékk að tefla með eldri hópnum. Stefán Borgar Brynjólfsson, Jakob Rafn Löve og Muhammad Sanan Ijaz Sulehria í 10. bekk skiptust á að tefla á 4. borði. Landakotsskóli er því sigurvegari Reykjavíkurmóts grunnskólasveita í 8.-10. bekk 2021! Stúlknasveitin var skipuð þeim Gerðu Bergsdóttur, Ástu Eddu Árnadóttur og Tinnu Sif Þrastardóttur í 8. bekk og fékk sveitin 4 vinninga. Þar sem hún var eina stúlknasveitin í flokknum sigraði skólinn einnig í stúlknaflokki í 8.-10. bekk! Liðsstjóri beggja liða var Gauti Páll Jónsson. Sjá nánar um úrslit mótsins á chess-results: https://chess-results.com/tnr584179.aspx?lan=1 

Sjá einnig frétt Taflfélags Reykjavíkur: https://taflfelag.is/reykjavikurmot-grunnskola-2021-landakot-og-rimaskoli-sigursael/