Landakotsskóli á Íslandsmóti barnaskóla- og grunnskólasveita
Smellið á myndirnar til að skoða fleiri myndir.
Landakotsskóli sendi þrjár sveitir til leiks á Íslandsmót barnaskóla- og grunnskólasveita helgina 12.-13. mars síðastliðinn. Skólinn sendi eina sveit til leiks í flokki 4.-7. bekkjar, og tvær sveitir í flokki 8.-10. bekkjar. Yngri nemendum bauðst að tefla einnig í eldri flokkunum. A-sveit Landakotsskóla í 8.-10. bekk hafði titil að verja en hafði ekki erindi sem erfiði þetta skiptið og lenti í 3. sæti eftir frækna baráttu. Snemma varð ljóst að baráttan var á milli Landakotsskóla, Lindaskóla og Vatnsendaskóla. Þessir skólar voru í algjörum sérflokki og einungis munaði hálfum vinningi á sigurliði Vatnsendaskóla (23.5 vinningar) og næstu tveimur (23 vinningar). Öll úrslit liðanna má nálgast á chess-results. Nemendur Landakotsskóla hafa sótt æfingar hjá Taflfélagi Reykjavíkur og Skákskóla Íslands og tekið virkan þátt í skákmótahaldi innanlands og jafnvel erlendis líka!
Nemendur í bronzliði Landakotsskóla-A voru:
-
Adam Omarsson
-
Iðunn Helgadóttir
-
Jósef Omarsson
-
Jón Loui Thoroddsen
vm. Muhammad Sanan Ijaz Sulehria
B-sveit Landakotsskóla hafði reyndar líka titil að verja (efsta B liðið) en varð að lúta í dúk gegn B-sveit Vatnsendaskóla sem einnig stóð sig gríðarlega vel. B-liðsmenn sýndu góða takta, ekki bara í sókn heldur líka í vörn, en afar áhugaverð pattstaða kom upp í skák Stefáns Borgars. Í skák er alltaf von þótt að kóngurinn verði ekki endilega mát. Þá verður hann bara patt í staðinn!
Nemendur í Landakotsskóla-B:
-
Stefán Borgar Brynjólfsson
-
Jakob Rafn Löve
-
Muhammad Rayan Ijaz Sulehria
-
Helgi Niels Gunnlaugsson
vm. Muhammad Sanan Ijaz Sulehria
19 lið tóku þátt í 3.-7. bekkjar mótinu og þar lenti Landakotsskóli í 6. sæti. Flottur árangur, og með aðeins heppilegri pörun hefði sveitin hæglega getað endað á palli, en í lokaumferðinni paraðist skólinn gegn sigursveit Vatnsendaskóla. Öll úrslit liðanna má nálgast á chess-results. Eins og sést tefldu þessir fjórir snillingar í báðum mótum, laugardag og sunnudag!:
-
Jósef Omarsson
-
Jon Loui Thoroddsen
-
Muhammad Rayan Ijaz Sulehria
-
Helgi Niels Gunnlaugsson
Það er skammt stórra högga á milli hjá skákliði Landakotsskóla en snemma í apríl verður Reykjavíkurmótið haldið og þar er að sjálfsögðu stefnt að sigri í allavega einum flokki, kannski tveimur! Það kemur bara í ljós, en það má samt ekki gleyma því að aðalatriðið er að hafa gaman að skákinni, þá fylgja góð úrslit!
Gauti Páll Jónsson, skákkennari í Landakotsskóla