Stefna varðandi snertingu starfsmanna og nemenda

on .

Stefna varðandi snertingu starfsmanna og nemenda 

Snerting barna og fullorðinna er eðlilegur þáttur í þroskaferli barns og það gæti sömuleiðis átt við um samstarf starfsfólks skóla og nemenda, ekki síst gagnvart yngri nemendum. Það breytir því þó ekki að sum snerting starfsfólks gagnvart nemendum getur verið óviðeigandi. Stjórnendur skóla eru ábyrgir fyrir því að kynna starfsfólki stefnu skóla og þessar leiðbeiningar. 

Eftirfarandi þættir gætu verið leiðsögn til að leiðbeina starfsfólki skóla um viðeigandi snertingu við nemendur: 

a. Hafðu í huga að snerting gagnvart nemanda ætti ætíð að vera á grundvelli þess að barn hefur þörf fyrir snertingu en EKKI starfsmaður. Snerting skal alltaf vera á forsendum barnsins. 

b. Sækist starfsmaður eftir líkamlegri snertingu við börn gæti slíkt bent til óeðlilegrar hegðunar starfsmanns. 

c. Líkamleg snerting starfsmanns gagnvart nemanda ætti að miðast við það að vera eingöngu við höfuð og niður á axlir og faðmlög í sumum tilvikum (starfsmaður gæti spurt nemandann „hvort hann vilji fá faðmlag“ eða „hvort hann megi koma við hann til að hjálpa honum“). Snerting á öðrum stöðum gæti bent til óeðlilegrar snertiþarfar starfsmanns. 

d. Starfsmanni ber að forðast að setja upp samskipti við börn sem miða að óþarfri líkamlegri snertingu starfsmanna og barna, jafnvel þótt slíkt sé sett upp sem „leikur“. 

e. Starfsmanni ber að forðast að vera í aðstæðum sem krefjast líkamlegrar snertingar þar sem einn starfsmaður og einn nemandi eru saman og einir um frásögn af aðstæðunum. 

f. Í meginatriðum verður að treysta á fagfólk í skólum að þekkja mörk eðlilegra og óeðlilegra samskipta við nemendur og þær aðstæður sem eðlilegt er að bjóða upp á í skólastarfi.