Um okkur

Landakotsskóli 

Túngata 15

101 Reykjavík

Sími: 5108200

Skólastjóri: Anna Guðrún Júlíusdóttir, sími 699-8200

Framkvæmdastjóri: Sigrún Birgisdóttir

Landakotsskóli er einn elsti starfandi skóli landsins, stofnaður árið 1896. Skólinn er sjálfstætt starfandi grunnskóli fyrir 1. til 10. bekk ásamt deild fimm ára barna. Einn bekkur er í hverjum árgangi. Fram til ársins 2005 var skólinn rekinn af Kaþólsku kirkjunni en hann er nú rekinn sem sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri stjórn. Skólinn starfar eftir sem áður í húsnæði Kaþólsku kirkjunnar við Túngötu í Reykjavík.

Skólinn starfar samkvæmt grunnskólalögum og er kennslan í samræmi við Aðalnámskrá. Skólinn hefur þó nýtt sér svigrúm til að taka upp ýmsa nýbreytni í skipulagi skólastarfsins með því að stórauka tungumálakennslu þannig að strax í 5 ára bekk byrjar ensku- og frönskukennsla. Á miðstigi byrja nemendur svo að læra dönsku.

Nemendur skólans eru flestir búsettir í Reykjavík en aðrir koma frá nágrannasveitarfélögum. Nemendur eru frá mörgum þjóðlöndum og gefur það skólanum fjölmenningarlegt yfirbragð. Öflugt foreldraráð er starfandi sem vinnur náið með nemendum og stjórnendum skólans að mótun skólastarfsins.

Tekið er eftir nemendum Landakotsskóla vegna góðrar framkomu og prúðmennsku. Góður andi og agi ríkja innan skólans og eiga þessir þættir ríkan þátt í góðum námsárangri nemenda.

Fagleg markmið Landakotsskóla eru að bjóða upp á góða og víðtæka grunnskólamenntun, auka fjölbreytni námsins eins og kostur er og að skólinn hafi á að skipa framúrskarandi kennurum og öðru starfsfólki. Markmiðið er að skólinn sé ætíð í fremstu röð og búi nemendur eins vel og kostur er undir framhaldsskólanám, leiki og störf framtíðarinnar og þátttöku í fjölmenningarsamfélagi. Þá er kappkostað að viðhalda því góða orðspori og sérstöðu skólans sem hann hefur skapað sér undanfarin 110 ár.

Almenn markmið miðast við að ávallt séu gerðar raunhæfar kröfur til hvers og eins nemanda og að í skólanum ríki ákveðinn og jákvæður agi. Kröfur til nemenda þurfa að mótast af getu þeirra og miðast við að þeim líði vel í skólanum. Reynt er að greina og virkja sérstaka hæfileika nemenda. Smæð skólans hefur verið kostur sem gerir það mögulegt að styðja betur við þá nemendur sem þess þurfa og nemendur af erlendum uppruna fá sérstakan stuðning við íslenskunám.

 

Umsóknir um skólavist

Umsóknir um námsvist er hægt að fylla út á netinu og senda til skólans allt árið um kring en sérstök innritun fyrir komandi skólaár er gjarnan auglýst í dagblöðum í febrúar og ágúst. Sömuleiðis tekur skólastjóri á móti foreldrum og væntanlegum nemendum hvenær sem er ársins til þess að sýna þeim skólann og kynna þeim skólastarfið. Einungis þarf að hringja í síma 510-8200 og panta tíma. Þú ert boðinn hjartanlega velkominn í Landakotsskóla!