Hlustað á raddir nemenda - Ráðstefna um lýðræðislega kennsluhætti

on .

3. september 2019
thumbnail mynd af heimasíðu

Landakotsskóli ásamt Kvennaskólanum í Reykjavík og Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða tóku þátt í tveggja ára Erasmus+ samstarfsverkefni milli Íslands, Danmerkur og Finnlands. Ráðstefna var haldin 16. ágúst sl. sem lokaliður í samstarfsverkefninu sem ber yfirskriftina Raddir nemenda (Students Voices). Á ráðstefnunni var fjallað um kennsluaðferðir sem miða að því að auka virkni og áhrif nemenda á kennsluhætti.

Tveir fyrirlesarar tóku til máls og héldu einnig vinnusmiðjur, Lilja M. Jónsdóttir lektor við menntavísindasvið HÍ og Dr. Tomas Höjgaard lektor við uppeldis- og menntunarsvið Aarhus Universitet í Kaupmannahöfn. Lilja M. Jónsdóttir flutti erindi um lýðræðislegar aðferðir í skólastarfi en hún hefur beitt ákveðnum aðferðum til að auka hlutdeild nemenda í mótun námsefnis. Dr. Tomas Höjgaard kynnti rannsóknir sínar á stærðfræðikennslu þar sem hann setur stærðfræði í samhengi við raunveruleika okkar í gegnum líkanasmíð. Dr. Höjgaard er einn þeirra sem mótaði nýja námskrá í stærðfræði í Danmörku sem nú er unnið eftir með öllum aldurshópum, allt frá yngstu nemendum og til nemenda á framhaldsstigi. Morgunblaðið birti viðtal við Dr. Tomas Höjgaard sem má lesa bæði á íslensku og á ensku.
 
Vefsíða Students´ Voices var einnig kynnt, meira efni er væntanlegt á vefsíðuna: https://www.studentvoices.eu/