Umferðaröryggi grunnskólabarna - ný lög

on .

Um áramótin 2020 tóku gildi ný umferðarlög sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2019. Ýmsar breytingar fylgja þessum nýju lögum sem mikilvægt er að almenningur hafi góða yfirsýn yfir enda varða umferðarlög alla vegfarendur á Íslandi.

Í því skyni að kynna breytingarnar hefur Samgöngustofa tekið saman þær allra helstu og sett fram með aðgengilegum hætti á einum stað á vefsíðu sinni.

Meðal breytinga á umferðarlögum sem varða umferðaröryggi grunnskólabarna má nefna:

  • Í umferðarlögunum er nú sérstaklega kveðið á um það að umferðarfræðsla skuli fara fram í grunnskólum. Ráðherra sem fer með fræðslumál ákveður að fenginni umsögn Samgöngustofu nánari tilhögun fræðslu og sveitarstjórnum ber að fræða almenning um þær sérreglur er gilda á hverjum stað.
  • Skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar er færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.
  • Hjólreiðamaður má hjóla yfir gangbraut (á gönguhraða).
  • Barn yngra en níu ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri.
  • Hjólreiðamaður sem náð hefur 15 ára aldri má reiða börn yngri en sjö ára, enda séu þeim ætluð sérstök sæti og þannig um búið að ekki stafi hætta af hjólteinunum.
  • Bann við notkun snjalltækja við akstur ökutækja – einnig reiðhjóla – er gert skýrt.
  • Umferðarfræðsla skal fara fram á öllum skólastigum: Í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.