3. mars

on .

Kennaranemar

Hér eru 5 kennaranemar þessa viku og næstu, verða aðallega í 4b og 5b en líta vafalaust inn hjá fleiri bekkjum. Þetta er fólk sem kann prýðilega til verka og lífgar upp á annars ágæta tilveru hjá okkur!

Samskiptamiðlar á netinu

Í vikunni sem leið voru áberandi fréttir um konu sem annars vegar hefur barist gegn netníði og hins vegar gerst sek um slíkt hið sama. Þegar fullorðnum verður svona hrösult í netheimum, við hverju er þá að búast af börnum og unglingum? Ég fæ nokkuð reglulega inn á borð til mín vandamál sem hafa orðið til vegna ógætilegrar notkunar barna og unglinga á miðlum eins og fésbók, twitter og instagram. Að jafnaði eru þessi mál ekki auðveld úrlausnar. Nokkrir nemendur fyrr og síðar hafa bakað sér reiði með skrifum sínum, aðrir valdið sárindum í annars garði og eitt mál var með þeim hætti að það var með því versta sem ég hef fengist við í starfi; tengdist afar óheppilegri myndbirtingu. Nútíminn líður svo hratt að fullorðnir gefa sér ekki tíma til að hugsa áður en þeir birta hitt og þetta á netmiðlum, jafnvel undir dulnefni. Börn lifa enn frekar í augnablikinu og hugur þeirra er svo óreyndur og framkvæmdaglaður að þau birta í sakleysi sínu eitt og annað á netinu sem kemur þeim í koll. Þau átta sig ekki á því hvað slík skrif geta fylgt þeim lengi og enginn veit hvar það endar sem birt er vini á netinu. Ég bið ykkur ræða þetta við börnin og ég hvet ykkur til þess að fylgjast með netnotkun þeirra á þessum miðlum sem öðrum.

Með góðri kveðju og verði ykkur bollur dagsins að góðu!

Sölvi