Frækinn árangur á Reykjavíkurmóti grunnskólasveita í skák
Í gær, mánudaginn 8. febrúar 2016, tók skáksveit Landakotsskóla þátt í feiknasterku Reykjavíkurmóti grunnskólasveita í skák. Alls tóku 33 lið þátt og er óhætt að fullyrða að velflest liðin búa að meiri reynslu en lið Landakotsskóla, en þetta er aðeins 2. mót sveitarinnar. Að þessu sinni tók 5 nemendur þátt og var því hægt að skipta reglulega inn á, sem kemur sér vel í löngu og ströngu móti sem þessu. Þau sem kepptu fyrir hönd skólans voru:
- Henrik Nói Júlíusson Kemp, 6. b
- Kirill Zolotuskiy, 6. b
- Iðunn Helgadóttir, 3. b
- Jóhannes Birglund Magnússon, alþjd. C/5
- Decca Jóhannesdóttir, 6. b
Tefldar voru 7 umferðir með 10 mínútur í umhugsunartíma. Krakkarnir stóðu sig eins og hetjur í baráttu við miklu stærri skóla. Þess ber að geta að liðsmenn Landakotsskóla voru einnig til algerrar fyrirmyndar í hegðun og aga. Þarna voru saman komin u.þ.b. 160-170 börn og aragrúi fullorðinna og aginn var ansi misjafn, en Landakotsskólabörnin voru ekkert að láta það á sig fá og voru skólanum til sóma. Allt í allt náði liðið 12 vinningum og hafnaði í 24. sæti. Framúrskarandi árangur hjá þessu unga og efnilega liði okkar!
Á myndasíðu Landakotsskóla getur að líta safn með myndum frá skákmótinu. Myndasafnið má nálgast undir valstikunni Nemendur eða með því að smella hér.