10. febrúar
Tölvumál
Við erum þessa dagana að þreifa okkur áfram með regluverk fyrir tölvunotkun í skólanum enda koma sífellt fleiri nemendur nú með spjaldtölvu. Hvað segið þið um eftirfarandi hugmyndir?
Reglur um snjalltæki
Skólinn amast ekki við því að nemendur komi með síma eða spjaldtölvu í skólann ef þeir hafa aldur og þroska til þess að vera með slík tæki. Allir nemendur skólans eru fæddir eftir að farsímar urðu almenningseign og allir hafa þeir alist upp með tölvu eða tölvur á heimilinu, yfirliett í þráðlausri tengingu. Skólinn getur ekki verið einhvers konar órafrænt eyland í nútímasamfélagi, en við viljum að nemendur virði eftirtaldar reglur:
1) Slökkt skal á farsímum og þeir geymdir í töskum í kennslustundum.
2) Óheimilt er með öllu að taka upp hljóð/mynd í skólanum.
3) Spjaldtölvur eru einungis ætlaðar til náms, alls ekki til leikja.
4) Spjaldtölvur skulu vera í kennslustofum meðan nemendur eru úti í frímínútum.
5) Nemendur skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsfólks um notkun snjalltækja.
Rökin fyrir þessum reglum eru einföld. Hringjandi sími er truflun í tíma. Myndir/hljóðupptökur hafa víða verið upphaf eða liður í einelti. Skóli er vinnustaður nemenda og því er þeim óheimilt að leika sér í tölvum. Nemendur á yngsta stigi og miðstigi eiga að vera úti í frímínútum og því er eðlilegt að dýr tæki séu læst inni í stofu á meðan.
Með góðri kveðju,
Sölvi