Stefna skólans

on .

1. Almennt um skólastarfið

A. Landakotsskóli er sjálfseignarstofnun sem starfar a grundvelli grunnskólalaga eftir því sem við á og samþykkta skólans. Markmið skólans er að veita nemendum sínum framúrskarandi grunnmenntun og að vera í fremstu röð grunnskóla á Íslandi.

B. Landakotsskóli byggir starf sitt á kristilegum gildum. Skólinn á í góðu samstarfi við kaþólsku kirkjuna á Íslandi sem á þær fasteignir sem nýttar eru í skólastarfinu. Skólinn er opinn öllum án tillits til trúarbragða.

C. Landakotsskóli leitast við að fá til starfa metnaðarfulla kennara á öllum sviðum og bjóða þeim upp á þá starfsaðstöðu sem tryggir árangur.

D. Landakotsskóli þjónar menningarlega fjölbreyttum hópi nemenda og sinnir þeim i samræmi við þarfir þeirra. Styrkur Landakotsskóla felst i litlum en öflugum nemendahópum í hverjum árgangi, þar sem hver nemandi fær að njóta sín.

E. Landakotsskóli leggur áherslu á að nemendur tileinki sér skipulögð vinnubrögð, læri að nýta tímann vel og þroski með sér heilbrigðan metnað.

F. Landakotsskóli tekur faglega og af festu á vandamálum sem upp kunna að koma á milli nemenda.

2. Aðbúnaður nemenda

A. Landakotsskóli eflir sjalfstæði, frumkvæði og sköpunarkraft nemenda í vinalegu hlýlegu og örvandi námsumhverfi.

B. Landakotsskóli leitast við að bjóða upp á sem bestan tækjakost og aðbúnað sem aukið getur gæði kennslu og skólastarfs.

C. Landakotsskóli leitast við að tryggja líkamlega og andlega velferð hvers nemenda með skipulögðu innra starfi undir stjórn skólastjóra í nánu samráði við foreldra.

D. Skólinn býður nemendum upp á hollt fæði, eldað í mötuneyti skólans.

3. Námsáherslur

A. Landakotsskóli leggur áherslu á tungumál, vísindi og listir i skólanámsskrá sinni. Skólinn býður einnig upp á meiri kennslu í íslensku og stærðfræði en aðalnámskrá krefst.

B. Nám i Landakotsskóla er námsgreinabundið frá  3. bekk.

C. Tungumálanám hefst i 5 ára bekk með kennslu i frönsku og ensku. Nemendur fá markvissa þjálfun í þessum tungumálum alla skólagöngu sína í Landakotsskóla og miðar kennslan að því að nemendur séu vel færir um að tjá sig í töluðu og rituðu máli á þessum tungumálum þegar grunnskólanum lýkur.

D. Nemendur í Landakotsskóla fá kennslu í náttúruvísindum umfram það sem aðalnamskrá krefst og miðar hún að því að þegar grunnskólanum lýkur búi þeir yfir góðum skilningi á einstökum grunngreinum vísinda, svo sem eölisfræði, liffræði og efnafræði, en átti sig einnig á tengslum vísindagreina, mikilvægi vísinda í nútímasamfélagi.

E. Skólinn veitir öfluga og fjölbreytilega kennslu í listgreinum frá upphafi skólagöngu. Boðið er upp á tónlistarkennslu í samvinnu við tónlistarskóla og kennslu í öðrum listgreinum ýmist á vegum skólans eða í samvinnu við listaskóla. Nemendur fá í senn kynni af listgreinum og öðlast skilning á tengslum lista við hefðbundnar námsgreinar grunnskólans.

4. Stjórn og starfslið

A. Stjórn Landakotsskóla fer með æðsta vald við stefnumótun skólans og sinnir almennu eftirliti með störfum skólastjóra, kennara og annarra starfsmanna í samræmi við samþykktir Landakotsskóla ses.

B. Skolastjóri er æðsti yfirmaður skólans og ber ábyrgð á daglegu starfi hans og rekstri í samræmi við lög og starfslýsingu.

C. Ráðning starfsmanna: Stjórn skolans ræður skólastjóra sem ber ábyrgð á og annast ráðningu annarra starfsmanna skólans.

D. Landakotsskóli hvetur kennara til að afla sér viðbótarmenntunar og sækja sér endurmenntun í samræmi við starfsskyldur.

E. Skólastjóri gengst fyrir mati á árangri og starfsemi skólans á hverju skólaári. Niðurstöðurnar eru birtar a heimasíðu skólans ásamt umbótaáætlun.

F. Stjórn skólans fundar að minnsta kosti einu sinni á ári með kennurum um skólastarfið.

5. Agamál og samskipti

A. Skýrar reglur gilda um aga nemenda og hlutverk kennara og stjórnenda við að framfylgja þeim reglum í nánu samráði við foreldra.

B. Skólastjóri setur samræmdar agareglur og tekur ákvarðanir um verklag þegar taka þarf á agavandamálum.

C. Skólastjórnendur leitast á við að eiga gott samstarf við foreldra. Upplýsa skal foreldra með reglubundnum hætti um námsframvindu barns og félagslega stöðu þess. Ef atvik eða aðstæður, er barn varða, koma upp í skólastarfinu skal tilkynna foreldrum barnsins um það án tafar.

D. Stjórn skólans og skólastjóri eiga reglulega samráðsfundi með foreldrafélagi þar sem rætt er um einstaka þætti þessarar stefnu.