Samþykktir fyrir sjálfseignarstofnunina
LANDAKOTSSKÓLI ses
Skipulagsskrá
I. kafli
Nafn, heimili og tilgangur stofnunarinnar
1gr.
Stofnunin er sjálfseignarstofnun og er heiti hennar Landakotsskóli.
2.gr.
Heimili stofnunarinnar er að Landakoti við Túngötu, Reykjavík.
3.gr.
Tilgangur stofnunarinnar er að reka einkarekinn grunnskóla í samræmi við grunnskólalög nr. 66/1995 m.s.br. Skólinn verður starfræktur á sama stað og Kaþólska kirkjan hefur rekið skóla að Landakoti, en sérstakur samningur er gerður við kaþólska biskupsdæmið í Reykjavík um notkun skólabygginga undir starfsemina. Skólahald mun markast af þeim sérkennum sem verið hafa í skólahaldi að Landakoti í rúm 100 ár. Þannig mun skipulag og framkvæmd kennslunnar vera grundvallað á kristilegum gildum sem kaþólska kirkjan hefur mótað í skólastarfinu.
Megintilgangur skólans er að reka menntastofnun í samvinu við kennara skólans og foreldra. Eftir atvikum verður staðið fyrir útgáfu og dreifingu fræðslu- og námsefnis, námskeiðum og fræðslufundum fyrir kennara og foreldra og samvinnu við aðra skóla hérlendis sem erlendis.
Hagnaður stofnunarinnar skal einvörðungu varið til almenningsheilla á sviði menntamála. Tap skal jafnað úr sjóðum stofnunarinnar.
II. kafli
Stofnendur og stofnfé stofnunarinnar
4.gr.
Stofnfé stofnunarinnar er kr. 1.500.000,- einmilljónogfimmhundruðþúsundkrónur.
5.gr.
Stofnandi er Kaþólska kirkjan og greiðir allt stofnframlagið.
6.gr.
Stjórn stofnunarinnar getur ákveðið hækkun stofnfjár með færslu úr frjálsum sjóðum stofnunarinnar og óráðstöfuðum hagnaði samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi og með arfi, gjöfum eða öðrum framlögum sem stofnunin hefur þegið til hækkunar á stofnfé.
7.gr.
Hvorki stofnendur né nokkrir aðrir njóta sérréttinda í stofnuninni.
III. kafli
Aðalfundur
8.gr.
Aðalfund stofnunarinnar skal halda fyrir lok maí ár hvert og skal þar taka eftirfarandi mál til meðferðar:
a) Skýrslu stjórnar um starfsemi stofnunarinnar á síðastliðnu starfsári.
b) Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur stofnunarinnar fyrir liðið starfsár skulu lagðir fram ásamt athugasemdum endurskoðanda stofnunarinnar til samþykktar.
c) Ákvörðun um hvernig hagnaði skuli varið í samræmi við 2.mgr. 3.gr. samþykkta þessara.
d) Kosning stjórnar þegar við á.
e) Kosning endurskoðanda.
f) Ákvörðun um greiðslu til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
g) Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál sem löglega eru borin upp.
h) Aðalfundur skal boðaður bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði.
i) Atkvæðisrétt á aðalfundi eiga stjórnarmenn einir. Stjórn er heimilt að bjóða stofnendum eða öðrum að sitja aðalfundi. Stjórn getur ákveðið að þeir hafi þar málfrelsi og tillögurétt.
j) Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð þar sem gerist á aðalfundi. Fundargerð skal lesin í fundarlok óski einhver stjórnarmanna eftir því.
a) IV. kafli
Stjórn stofnunarinnar
9.gr.
Stjórn stofnunarinnar skal skipuð fimm mönnum og einum til vara. Fyrst í stað skipar Kaþólska kirkjan stjórnina, en síðan kýs stjórn stofnunarinnar stjórnarmenn. Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Segi einhver stjórnarmaður af sér eða getur ekki gegnt stjórnarstörfum af öðrum sökum tekur varamaður sæti hans í stjórninni. Kjörtímabil stjórnar er fjögur ár.
10.gr.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum og kýs formann, varaformann, sem jafnframt er ritari og gjaldkeri.
11.gr.
Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstarfi úrslitum. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi tök á að fjalla um málið sé þess kostur.
b) Formaður boðar til stjórnarfunda með minnst tveggja daga fyrirvara. Fullnægjandi telst að boða stjórnarfund með rafpósti á skráð netföng stjórnarmanna.
c) Halda skal fundagerðarbók um það sem fram fer á stjórnarfundum, sem skal undirrituð af þeim sem sitja fund. Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, sem er ekki sammála ákvörðun stjórnar á rétt á að fá sérálit sitt bókað.
12.gr.
Stjórn sjálfseignarstofnunar fer með málefni hennar og eru meginskyldustörf stjórnar eftirfarandi:
d) Að tryggja að starfsemi stofnunarinnar sé á hverjum tíma í fullu samræmi við tilgang hennar samkvæmt 3.gr. samþykkta þessara.
e) Að ráða framkvæmdastjóra, einn eða fleiri, ákveða laun þeirra og ráðningarkjör og ákveða starfslýsingu.
f) Að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri stofnunarinnar. Sjá um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sérstaklega skal hún annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar.
g) Að koma fram fyrir hönd stofnunarinnar fyrir dómstólum og stjórnvöldum.
h) Að hafa samstarf við framkvæmdastjóra stofnunarinnar um ráðningu annarra helstu starfsmanna stofnunarinnar.
i) Að skera úr um ágreining sem kann að koma upp milli framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna.
j) Að ráða hver eða hverjir skuldbinda stofnunina.
k) Að ráða fram úr öðrum málum sem hún telur nauðsyn á hverju sinni.
l) 13.gr.
Stjórnarmenn skulu hafa aðgang að öllum bókum og skjölum stofnunarinnar.
14.gr.
Meirihluti stjórnar ritar firma stofnunarinnar.
m) V. kafli
Framkvæmdastjóri
15.gr.
Stjórn stofnunarinnar er heimilt að ráða framkvæmdastjóra, einn eða fleiri og ákveða starfskjör þeirra. Framkvæmdastjóri skal að jafnaði hafa prókúruumboð fyrir stofnunina.
Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og skal hann í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin gefur.
Framkvæmdastjóri kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar í öllum málum er varða daglegan rekstur. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar og mikils háttar.
Framkvæmdastjóri sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs í samvinnu við og með samþykki stjórnar. Stjórn stofnunarinnar tekur ákvörðun, hvort segja skuli starfsfólki upp störfum. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar sem þeir kunna að óska eftir.
Framkvæmdastjóri á sæti á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður og hefur þar málfrelsi og tillögurétt nema stjórn stofnunarinnar ákveði annað í einstökum tilvikum.
16.gr.
Ákveði stjórn stofnunarinnar að ráða fleiri en einn framkvæmdastjóra ákveður hún verkskiptingu milli þeirra.
VI. kafli
Reikningar og endurskoðun
17.gr.
Á aðalfundi stofnunarinnar skal kjósa einn endurskoðanda og einn til vara eða endurskoðunarfirma. Skal endurskoðandi rannsaka allt reikningshald og reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna stofnunarinnar.
18.gr.
Starfsár og reikningsár er almanaksárið frá 1.ágúst. Stjórn skal hafa lokið gerð ársreikninga eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Reikningurinn skal þá afhentur endurskoðanda stofnunarinnar til endurskoðunar.
Endurskoðandi skal hafa lokið endurskoðun ársreikninga eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Ber honum þá að senda hann til stjórnar stofnunarinnar ásamt athugasemdum sínum.
Eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsársins, skal senda stjórnvaldi því sem tekur við ársreikningum félaga ársreikning eða samstæðureikning stofnunarinnar ásamt skýrslu stjórnar, áritun endurskoðanda og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur.
VII. kafli
Breytingar á samþykktum
19.gr.
Til breytinga á samþykktum þarf samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða á stjórnarfundi.
VIII. kafli
Slit og sameining
20.gr.
Með tillögur um slit eða sameiningu stofnunarinnar skal fara sem um breytingar á samþykktum þessum.
Að öðru leyti gilda ákvæði einkahlutafélagalaga um félagsslit, samruna o.fl. eftir því sem við á.
Við slit stofnunarinnar skal hreinni eign hennar ráðstafað í samræmi við 2.mgr. 3.gr. samþykkta þessara.
IX. kafli
Almenn ákvæði
21. gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessara segja ekki til um hvernig með skuli fara skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur svo og öðrum lagaákvæðum sem við geta átt.