Sjálfsmatsáætlun
Sjálfsmat skólans er umbótamiðað og í framhaldi af hverjum áfanga er tekin saman umbótaáætlun til þess að bregðast við niðurstöðum matsins. Eftirfarandi áætlun gildir fyrir næstu ár:
Skólaárið 2013-14
Nú verður endurtekið mat á starfi unglingastigsins með hliðsjón af fyrra mati og þeirri umbótaáætlun sem samin var í kjölfar þess.
Skólaárið 2014-15
Farið verður í saumana á unglingastigi (7.-10. bekk). Farið verður yfir námsframboð, kennsluhætti, námsárangur, líðan nemenda, viðhorf kennara til námsefnis og –mats, viðhorf foreldra til starfsemi skólans og vinnu barna sinna. Jafnframt verður athugað hvernig námsframboð skólans rímar við kröfur framhaldsskóla. Niðurstöður matsins verða bornar saman við hliðstætt mat frá vorinu 2011 og umbótaáætlun í kjölfar þess.
Skólaárið 2015-16
Miðstig skólans (4.-6. bekkur) verður tekið til skoðunar með hliðsjón af námsframboði, kennsluháttum og námsárangri – einkum í íslensku og stærðfræði – líðan nemenda, viðhorfum kennara til námsefnis og –mats, viðhorfum foreldra til starfsemi skólans og vinnu barna sinna. Jafnframt þessu verður þjónusta bókasafns við nemendur og kennara metin.
Skólaárið 2016-17
Hér verða yngstu bekkirnir teknir til athugunar, fimm ára deildin og 1.-4. bekkur. Sérstaklega verður metin samfellan milli þessara bekkja, en að öðru leyti verður farið í sömu spor og að ofan greinir.
Jafnframt þessu verður stjórn skólans metin af hálfu elstu nemendanna, starfsmanna og foreldra.