Listasafn Reykjavíkur bauð þrjátíu börnum úr 5.- 6. bekk og alþjóðadeildinni að taka þátt í gjörningi á Þingvöllum 15. janúar 2016.
Gjörningurinn var hluti af verki listamannsins Michael Joaquin Grey en hann sýnir ásamt fleiri listamönnum á sýningunni Aftur í sandkassann - Listir og róttækar kennsluaðferðir sem nú stendur yfir í Hafnarhúsinu. (http://listasafnreykjavikur.is/frettir/thusund-sitrustre-thingvollum) . Grey er meðal annars þekktur fyrir að hafa hannað leikfangið Zoob (https://en.wikipedia.org/wiki/ZOOB)
Í gjörningnum höfðu börnin það hlutverk að skiptast á að bera mandarínutré upp Almannagjá. Þegar upp var komið voru tvær úr hópnum fengnar til að gróðursetja tréð.
Áður en þær hófust handa spurði listamaðurinn hópinn hvað þeim þætti um að gróðursetja mandarínutréð þarna. Þau höfðu mismunandi skoðanir á því. Sumir vildu að þær héldu áfram, tréð yrði skilið eftir á Þingvöllum. Aðrir vildu taka það til baka. Bæði væri að tréð mundi deyja og að það væri ekki leyfilegt að gróðursetja svona tré á þessum stað. Listamaðurinn bað þá að rétta upp hönd sem vildu taka tréð aftur til baka, það var meirihluti fyrir því. Þá sagði hann að þau yrðu að taka það með sér og varðveita það. Tréð verður í skólanum og nú þarf að finna út hvernig best er að halda mandarínutré á lífi.
Ferðin var mjög vel heppnuð. Á Þingvöllum var frost og stillur og einstaklega fallegt veður. Ekki sakaði að listasafnið bauð upp á veitingar í lok gjörningsins.